Hið Gullna Augnablik

Þú vissir það ei, þig gisti í gær
Hið gullna augnablik
Frá timanna djúpi bylgja barst
Að brjósti þér, ljós og kvik
En sjón þín var haldin og heyrnin með
Við hversdagsins önn og ryk

Það örlögum réð, að sál þín svaf
Er só, þig heim sú stund
Því aldan, er faldar geislum guðs
Um gæfunnar bláu sund
Hnígur aðeins eitt einasta sinn
Á ævi þinnar fund

Í morgun vaknaði vera þín
Í vitund um hjartans töp
Því nóttin átti sér engan draum
En ótal stjarna hröp
Þá fannst þér auðlegð, sem önnin gaf
Vera illra norna sköp

Með þögulum trega telurðu nú
Hvert timans bylgjuslag
Nú stillir ei himinn hörpu meir
Við hafsins undralag
Það augnablik, sem var gullið í gær
Er grátt eins og vofa í dag

Ég hvísla óði í eyra þér
Um æskunnar týndu sýn
En ljóð mitt á framar engin orð
Og engan tón, sem skín
Þú vissir það ei: Þetta augnablik
Var eilífðin mín og þín



Credits
Writer(s): Guðfinna Jónsdóttir
Lyrics powered by www.musixmatch.com

Link