Áfangastaður

Ég hef reikað um heiðar og stórgrýttan stig
Og mín stef út í bláinn ég kvað
Og sóldúfur vorsins mér fylgdu í för
Og hið fjúkandi haustgula blað
Ég bar þreytu um öxl mér og þorsta á vör
Hve þráði eg minn áfangastað

En ef hvíldin býðst, vaknar bandingjans þrá
Spurðu bátinn, sem liggur við naust
Þann er stefninu yppti í ólagaskafl
Meðan útsærinn kvað hæst við raust
Spurðu gráspörinn smáa, er þig gisti í vor
Spurðu grasið, er fölnar um haust

Eins og sóldúfur loftsins, er leita að storð
Eins og löndin, er hefjast úr mar
Hefur andi minn leitað að áfangastað
En af óró hann mettaðist þar
Þaðan blasti við augunum áfangi nýr
Er hið óþekkta í faðmi sér bar

Og hvíldalaus þráin og þrá eftir hvíld
Verður þraut, er ég tæplega veld
En í laufskála svörtum, er svefninn mér býr
Hlýt ég sitja við draumanna eld
Og í morgunsins gullnu og gróandi vin
Vil ég gista, er líður á kveld

Og með þreytu um öxl og með þorsta á vör
Legg ég þögul á öræfin blá
Nú veit ég, að hugur minn orkar því einn
Hvaða útsýn er hæðunum frá
Því að áfangastaður hvers einasta manns
Er hin óræða, volduga þrá



Credits
Writer(s): Guðfinna Jónsdóttir
Lyrics powered by www.musixmatch.com

Link