Tvær systur

Í dalsins kyrrð þær uxu af einni rót
Tvö yndisblóm, er teygðu sig geislum mót
Frá himni og jörð þær öðluðust sömu svör
Því sömu spurnir léku á beggja vör

Og tíminn leið. Svo leiddust þær hönd í hönd
Um heiðan dag á æskunnar furðuströnd
Og sami eldur í beggja hjörtum brann
Þær báðar hlutu að elska sama mann

Sú undi skammt, er öðlaðist lánsins gjöf
Því annarrar sorg þær lagði báðar í gröf
Á legstaðnum hvísla reyrstráin raunamál
Um rósir tvær, sem drottinn gaf eina sál



Credits
Writer(s): Guðfinna Jónsdóttir
Lyrics powered by www.musixmatch.com

Link