Mannsbarn

Við háan múr
Er mannsbarn í förum
Í leit að geislum
Í leit að svörum

Sumstaðar bergið
Er bergfléttu þakið
Sumstaðar blátt
Sorfið, nakið

Maður gengur
Svo lengi sem lifir
Hvorki er vegur
Undir né yfir

Kalinn á hug
Og kvalinn efa
Ræðst hann á bergið
Hnýttum hnefa

Þögul og köld
Eru klettaleynin
Svo ber hann höfði
Við harðann steininn

Þögnin eykst
Og hann þrýstir í harmi
Að náköldum hamrinum
Nöktum barmi

Hjarta mannsins
Við múrinn grætur
Að fótum bjargsins
Hann fallast lætur

Stjarna hrapar
Í heiðnætur friði
Sem hrynji laufblað
Af ljóssins viði



Credits
Writer(s): Guðfinna Jónsdóttir
Lyrics powered by www.musixmatch.com

Link