Meðalhófið

Meðalhófið
(Ólína og Herdís Andrésdætur)

Vandi er að verjast syndum
Vel og skyldur rækja.
Freistni í mörgum myndum
Mig í net vill flækja.
Það er ljóta þófið,
Af því hefst margur glæpur,
Að mjótt er munndangs-hófið
Og meðalvegurinn tæpur.

Ég má ekki hata,
Er það lítill vandi,
Raun er meiri að rata
Rétt að kærleiks landi.
Af því ég á að kunna
Alla að gjöra að vinum,
Ekki má ég unna
Einum meir en hinum
Ekki má ég unna
Einum meir en hinum

Ég má ekki hlæja,
Á því hneykslast fjöldinn.
Þá skal þögnin nægja,
Þung eru syndagjöldin.
Ég má ekki gráta,
Þá undir hjartans blæða,
(Og) ei mér leiðast láta
Lífsins strit og mæða.

Þá heyri ég heiminn dæma,
Er heimska og öfund ræður,
Lætur hann sér það sæma

Að sverta veika bræður.
Mig þó mikið langi
Meðalhóf að sýna,
Á ég fullt í fangi
Að fjötra gremju mína.
Á ég fullt í fangi
Að fjötra gremju mína.

Líti ég ljóða-pésa
Með léttu stuðlafalli,
Langar mig að lesa,
Þó lífsáhyggjur kalli.
Ég stenst ekki prófið
Við unaðs ljúfa drauminn,
Man ei meðalhófið
Og missi alveg tauminn.

Mér finnst það ljúfur friður
Að fella arma báða,
Löt að leggjast niður
Og láta drauminn ráða.
Svo er hægt að híra
Á hafi mótlætinga,
En heim er strangt að stýra
Í straumum tilfinninga

Ég má ekki hata,
Er það lítill vandi,
Raun er meiri að rata
Rétt að kærleiks landi.
Af því ég á að kunna
Alla að gjöra að vinum,
Ekki má ég unna
Einum meir en hinum.
Ekki má ég unna
Einum meir en hinum



Credits
Writer(s): Gardar Borgthorsson, Rakel Bjoerk Bjoernsdottir
Lyrics powered by www.musixmatch.com

Link